Hvað eru margar frumeindir í súrefnissameind

Hvert frumefni hefur ákveðið efnatákn sem samanstendur af einum eða tveimur bókstöfum. Til dæmis hefur súrefni efnatáknið O, vetni H, kolefni C, helín He og svo mætti lengi telja.

Uppbyggingu efna er hægt að lýsa með nokkrum efnaformúlum. Í svonefndri sameindaformúlu (e. molecular formula) kemur fram hvaða frumefni eru í efninu og hversu margar frumeindir af hverri gerð eru í efninu. Reynsluformúla (e. empirical formula) tilgreinir hvert hlutfall frumefnanna er og byggingaformúla (e. structural formula) útskýrir byggingu efnisins.

Bygging súrefnissameindar
Sameindaformúla lýsir gerð og fjölda allra frumefna í sameind. Sameindaformúla súrefnis er O2 og segir tölustafurinn 2 okkur að það eru tvær súrefnisfrumeindir í einni súrefnissameind. Að sama skapi segir sameindaformúla ósons (O3) okkur að óson er uppbyggt af þremur súrefnisfrumeindum, vatn (H2O) er uppbyggt af tveimur vetnisfrumeindum og einni súrefnisfrumeind, etanól (C2H6O) inniheldur tvær kolefnisfrumeindir, sex vetnisfrumeindir og eina súrefnisfrumeind, og svo framvegis.

Bygging vatnssameindar
Ef fleiri en tvær frumeindir eru í sameindaformúlunni er ekki alltaf augljóst hvernig bygging sameindarinnar er, það er hvaða frumeindir tengjast hverjum. Í tilviki sameinda sem innihalda einungis tvær frumeindir, eins og á við um súrefnissameindina, er þó greinilegt að frumeindirnar tengjast hvor annarri beint. Hins vegar sést ekki á sameindaformúlunni að á milli súrefnisfrumeindanna er svokallað tvítengi, það er tvö tengi. Súrefni hefur nefnilega þann eiginleika að geta bundist með tveimur tengjum eins og sést líka í tilviki vatns þar sem ein súrefnisfrumeind tengist tveimur vatnsfrumeindum. Til eru ýmsar reglur og ábendingar um tengigetu frumeinda sem geta hjálpað manni að átta sig á byggingu sameinda.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband