Einelti gegn stúlkum

Amnesty International krefur ríkisstjórnir og skólayfirvöld um allan heim um að grípa til áhrifaríkra aðgerða til að enda ofbeldi gegn stúlkum, þá sérstaklega innan veggja kennslustofunnar. Ný skýrsla um ofbeldi gegn stúlkum í skólum kom út nýverið á vegum samtakanna.

Að sögn Amnesty International hafa ríkisstjórnir brugðist stúlkum í grundvallaratriðum á borð við öryggi í skólum. Það er að mati samtakanna óásættanlegt að ekki sé brugðist við ofbeldi gegn stúlkum í skólum á áhrifaríkan og tafarlausan hátt.

Samtökin benda á að nánast allar ríkisstjórnir heims hafa fordæmt ofbeldi gegn konum og stúlkum. Ríkisstjórnir bera beina ábyrgð á grunnskólastarfi og eru grunnskólar mikilvægur vettvangur fyrir yfirvöld að standa við orð sín og fylgja þeim eftir með beinum aðgerðum.

Skýrslan, sem ber heitið Öruggir skólar: réttur allra stúlkna (Safe Schools: Every Girl´s Right), sýnir fram á að ofbeldi innan skóla er alvarlegt samfélagsvandamál víðast hvar um heim. Stúlkur hvarvetna eiga það á hættu að verða fyrir kynferðislegu ofbeldi, þær áreittar eða þeim hótað á leið sinni í skólann og innan veggja hans.

Sumar stúlkur eru í meiri áhættu að verða fórnalömb ofbeldis en aðrar. Stúlkur sem tilheyra þjóðernisminnihlutum, lesbíur og fatlaðar stúlkur eru sérlega í hættu á að vera beittar ofbeldi.

Í skólanum verða margar stúlkur fyrir andlegu ofbeldi, þær niðurlægðar og lagðar í einelti. Sumar stúlkur eru barðar í kennslustofunni undir því yfirskyni að halda uppi aga. Stúlkur eiga ennfremur á hættu að vera beittar kynferðislegu ofbeldi af hálfu annarra nemenda, þeim boðnar hærri einkunnir í skiptum fyrir kynlífsgreiða, eða þeim jafnvel nauðgað á kennarastofunni.

Rannsókn meðal skólastúlkna í Malaví frá árinu 2006 sýnir fram á að helmingur stúlknanna kvaðst hafa verið snert á kynferðislegan hátt í leyfisleysi af kennara eða samnemendum.

Ennfremur hefur rannsókn í Bandaríkjunum sýnt fram á að 83% stúlkna í ríkisreknum grunnskólum á aldursbilinu 12-16 ára hafa upplifað einhvers konar kynferðislega áreitni.

Árásir á stúlkur í skólum hafa bæði skyndileg og langvarandi áhrif.

Ofbeldið hefur ekki einungis áhrif á líkamlega og andlega heilsu stúlknanna heldur einnig áhrif á möguleika þeirra til að afla sér menntunar. Fórnarlömb ofbeldis eru líklegri til þess að hætta í skóla og gefa upp vonina um að losna úr vítahring fátæktar og áhrifaleysis.

Samtökin benda á aðgangur að góðri menntun er lykillinn að því að efla þátttöku kvenna á opinberum sviðum samfélagsins og styrkja konur til virkrar samfélagslegar þátttöku. Það hefur ævilöng áhrif á konur að vera neitað um menntun.

Árásargjarnir og óviðeigandi kynferðislegir tilburðir drengja í skólum hafa oft verið álitnir sem eðlileg drengjahegðun. Slík viðleitni sendir þau skilaboð að ofbeldi gegn konum og stúlkum sé ásættanlegt og að áreitni af hendi drengja sé eðlileg.

Í viðtölum á vegum Amnesty International við íbúa á Haíti kom fram að ofbeldi þekktist víða í skólum en væri sjaldan tilkynnt. Líkamlegar refsingar á borð við svipuhögg, barsmíðar með rafmagnssnúrum, matarskortur, kynferðislegt ofbeldi, móðganir, og andlegt ofbeldi voru algengar refsingar sem kennarar og aðrir starfsmenn skóla útdeildu.

Konur eiga sérlega á hættu að vera beittar ofbeldi í skólum á átakasvæðum. Skólastarf fer ennfremur alvarlega úr skorðum þar sem kennarar og nemendur eru skotmörk vopnaðs ofbeldis. Í Afganistan eru íkveikjur í skólum sífellt algengari, þá sérstaklega í stúlknaskólum, og eru ógnanir og árásir á kvenkyns nemendur æ algengari þar á síðustu árum.

Margir grunnskólar innheimta enn skólagjöld, þrátt fyrir að alþjóðalög kveði á um að grunnskólamenntun hvarvetna í heiminum eigi að vera gjaldfrjáls. Skólagjöld og önnur tengd gjöld eru óyfirstíganleg hindrun fyrir margar fjölskyldur og eru stúlkur líklegri en strákar til þess að vera neitað um skólagöngu ef foreldrar hafa ekki efnahagslega burði til að senda öll börn sín í skóla.

Amnesty International hefur birt sex liða áætlun handa yfirvöldum og yfirmönnum skólastofnanna, sem í birtast eftirfarandi tillögur:

Að koma á og fylgja eftir viðeigandi lögum, stefnum og aðgerðum sem banna allar tegundir ofbeldis gegn konum, þar með taldar líkamlegar refsingar, munnlegar svívirðingar, áreitni, líkamlegt og andlegt ofbeldi, kynferðislegt ofbeldi og misnotkun.

Að koma á fót aðgerðaáætlunum í hverju landi til þess að tryggja öruggt umhverfi fyrir stúlkur. Þar ætti að vera innifaldar leiðbeiningar fyrir skóla og lögbundna þjálfun fyrir kennara og nemendur.

Kennarar, skólayfirvöld og aðrir opinberir starfsmenn þurfa að bregðast skjótt við tilkynningum um ofbeldi og tryggja verður áhrifaríka eftirfylgni við hvert mál. Tryggja verður að áhrifarík rannsókn og lögsókn á hendur geranda verði framkvæmd þegar slíkt á við og að stuðningi á borð við læknisþjónustu til handa fórnalamba ofbeldis sé komið á fót eða hann efldur.

Að lokum hvetja Amnesty International ríkisstjórnir sem vinna að þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna að taka fyrir og fjalla um ofbeldi og misrétti í garð kvenna. Þessi markmið, sem miða að því að útrýma fátækt, innihalda kröfur um aðgang allra að grunnskólamenntun og jafnrétti kynjanna. Árangur þeirra er mældur í fjölda stúlkna í hverjum bekk, en ekki er innan þeirra tekið á því ofbeldi og misrétti sem gerir það að verkum að stúlkur hrökklast úr skóla eða fá ekki tækifæri til skólagöngu.

Amnesty International styður aðgerðir ríkja sem miða að því að ná Þúsaldarmarkmiðunum en benda samtökin jafnframt á að til að tryggja jafnrétti kynjanna þarf að koma til aukin skuldbinding ríkja og tafarlausar aðgerðir til að enda ofbeldi gegn stúlkum í skólum. Það er þraut að læra þegar berjast þarf gegn ofbeldi á hverjum degi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband